Quantcast
Channel: Kimi Records » Releases
Viewing all articles
Browse latest Browse all 10

Borko – Born to be Free

$
0
0

Út er komin hljómplatan Born to be Free með Borko. Platan inniheldur lög úr smiðju Björns Kristjánssonar, grunnskólakennara á Drangsnesi á Ströndum. Born to be Free er margræð plata með níu lagasmíðum, löðrandi í heillandi útsetningum, grípandi laglínum og lausnum að vandamálum heimsins. Viðfangsefni plötunnar er hinn hversdagslegi raunveruleiki en efnistökin ramba á barmi hins óraunsæja og draumkennda og eru hlaðin vísunum í ýmsar áttir bæði í tónlist og textum. Borko steikir þig og étur þig, er skilinn eftir í Hnífsdal og brýtur rifbein á klósettskálinni. Lögin og útsetningar fylgja þessum vandrataða stíg sömuleiðis, eru í raun hversdagsleg og hefðbundin popplög en hlaðin merkingu, leyndum smáatriðum og óvæntum augnablikum. Born to be Free er blæbrigðarík og persónuleg plata sem skilur mark sitt eftir á eyrum hlustenda.
Borko var stofnuð sem annar helmingur fjöllistadúettsins Hondo ja Borko og tónlistarlegt hliðarsjálf Björns Kristjánssonar í sneypuför til Finnlands haustið 1999. Síðan þá hefur Borko gefið út eina vandfundna þröngskífu sem ber titilinn Trees and Limbo og breiðskífuna Celebrating Life sem kom út árið 2008. Að auki hefur Borko séð um áslátt og flæði hjá FM Belfast, tónsmíðar og dans í sviðsverkinu Klúbbnum og hljómborðleik hjá Prinspóló.
Síðustu ár hefur samverkamönnum Borko farið fjölgandi og strákarnir í Borko telja nú Magnús Trygvason Eliassen sem leikur á trommur, Guðmund Óskar Guðmundsson sem plokkar bassann, Örn Eldjárn sem leikur á gítar, Inga Garðar Erlendsson sem sleðar básúnu og leikur á hljóðgervla, Áka Ásgeirsson sem þenur þrymfetil og að sjálfsögðu Björn Kristjánsson sem syngur, leikur á gítar og sinnir ýmsum tilfallandi verkefnum.
Born to be Free kemur út víðar en á Íslandi og mun verða fáanleg um heim allan þann 2. nóvember næstkomandi. Þá mun hún koma út á vegum hins þýska Sound of a Handshake, á geisladiski og vínylplötu. Um útgáfu hér á landi sér Kimi Records.
Born to be Free er tekin upp og hljóðblönduð af Gunnari Tynes og Birni Kristjánssyni. Um útsetningar á strengja- og blásturshljóðfærum sá Ingi Garðar Erlendsson. Um hljóðfæraleik sáu Björn Kristjánsson, Magnús Trygvason Eliassen, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Róbert Sturla Reynisson, Gylfi Blöndal og Sóley Stefánsdóttir. Strengir voru stroknir af strengjadeild Amiinu, þeim Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Hildi Ársælsdóttur, Eddu Rún Ólafsdóttur og Sólrúnu Sumarliðadóttur og um lúðraþyt sáu þeir Stefán Jón Bernharðsson, Eiríkur Orri Ólafsson, Áki Ásgeirsson, Ingi Garðar Erlendsson og Páll Ivan Pálsson. Umslag hannaði Björn Þór Björnsson en Jónatan Grétarsson tók ljósmyndir. Um hljómjöfnun sá Alan Douches.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 10

Latest Images

Trending Articles





Latest Images